Plöntulykill

Greiningarlykillinn er hannaður með það að leiðarljósi að allir geti notað hann óháð því hvort þeir þekki vel til Flóru Íslands. Það er tilkomið vegna ítarlegra teikninga af séreinkennum plantna.

Við þróun og smíði hugbúnaðarins var leitað í grasasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem farið var yfir tegundir íslensku Flórunnar. Leitað var eftir séreinkennum hverrar plöntu, þau skráð og flokkuð niður. Því næst voru einkennin borin saman við aðrar tegundir og þannig voru auðeinkenni tegunda meðal annars dregin fram.

Niðurstaðan er einfalt viðmót/flokkunaraðferð þar sem notandinn velur eftir þeim einkennum sem hann kýs sjálfur að greina eftir.

Greina má eftir fjölda krónublaða, lit, blaðröndum, stöðu á stöngli, stönglinum sjálfum, hæringu hans og/eða laufblöðum og svo mætti lengi telja.

Plöntulykillinn er ætlaður öllum aldurshópum og getur jafnframt þjónað hlutverki í tengslum við ferðaiðnaðinn og landkynningu, innan lands sem og utan. Fræðsluhlutverk hans er ótvírætt hvort sem um er að ræða umhverfisfræði, náttúrufræði, vistfræði, menningu og síðast en ekki síst nýsköpun.

Myndband

Leiðbeiningar

Plöntulykillinn opnast þegar notandinn smellir á upphafsmyndina, sem kemur á skjáinn þegar forritið er ræst.

Þar næst opnast skjámynd sem birtir lista með nöfnum og myndum af Flóru Íslands.

Notandinn getur þar valið um að leita eftir nafni, hvort sem það er á íslensku eða latnesku, eða smellt á hnappinn GREINA. (Sjá skjámyndir hér fyrir ofan)

Þegar smellt er á GREINA opnast fyrir notandanum hundruðir möguleika en þó eru aðeins fáir sýnilegir til að byrja með.

Einfaldasta greiningaraðferðin er að fara í valmöguleikann “Blóm” og að velja þar “Litur”, t.d. gulur og þá opnast listi með öllum gulum plöntum í íslensku Flórunni.

Síðan er hægt að smella aftur á greiningarhnappinn og velja aðra valmöguleika, t.d. “Laufblað” og greina þá plöntuna eftir strengjagerð laufblaða, blaðlögun, hæringu laufblaða o.s.frv.

Ef valið er að greina eftir blómi þá opnast möguleikar eins og fjöldi krónublaða, blómskipan, kynferði, fjöldi fræfla, lögun framenda og svo mætti lengi telja.

Með þessu móti heldur notandi áfram að greina plöntuna sem fyrir augu ber og takmarkar jafnframt þær plöntur sem koma til greina sem rétt svar í plöntulyklinum.

Einnig hefur notandinn valmöguleika um að fara í ákveðna tegundahópa eins og starir, grös, elftingar, tungljurtir, sef, burkna, jafna og vatnajurtir.

Öll hugtök t.a.m. “Fjöldi fræfla” eru útskýrð með skýringarmyndum sem hjálpa notanda við að auðkenna undraheim plantnanna.

Þegar notandinn hefur greint sig niður á ákveðna plöntu, hefur hann möguleika á því að lesa um hana, skoða útbreiðslukort, ljósmyndir og lista yfir öll einkenni plöntunar með skýringarmyndunum.

 

Hvenær?

Plöntulykillinn er komin á markað fyrir Android símtæki og spjaldtölvur á Google play.

Nú er unnið að því að hanna plöntulykilinn fyrir önnur stýrkikerfi, Windows síma og spjaldtölvur ásamt IOS iPhone og iPad.

Jafnframt stendur til að þýða lykilinn á ensku og þýsku.

Um verkefnið

Hugmyndafræðin á bakvið plöntulykillinn hefur alla tíð snúist um að fræða og upplýsa.

Gagnvirkni spilar stórt hlutverk þar sem hugbúnaðurinn krefst þess af notanda að skoða plöntuna, velja fyrir ákveðnum einkennum og smella svo á snertiskjá í símanum sínum.

Þannig er notandinn leiddur í gegnum grasafræðina með skýringarmyndum.

Plöntulykillinn er því verkfæri fyrir alla aldurshópa, sem gefur áður óþekkta valmöguleika til upplýsinga um Flóru Íslands.

Frumkvæðið að plöntulyklinum átti Sigmundur Helgi Brink starfsmaður Landbúnaðarháskóla Íslands og fékk hann til liðs við sig Guðmund Frey Hallgrímsson forritara.

Styrktaraðilar verkefnisins eru: Impra Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Náttúrufræðistofnun, Landgræðslan, Veiðimálastofnun og Hátækni.

Plöntulykillinn hefði aldrei orðið að því sem hann er nema fyrir tilstuðlan Harðar Kristinssonar grasafræðings og Söru Riel listamanns.

Hörður Kristinsson lagði til allan texta í lýsingum, ljósmyndir og grunn í útbreiðslukortin. Hörður lagði einnig til þau greiningaratriði sem notuð eru í lyklinum.

Sara Riel listamaður teiknaði allar skýringarmyndir í plöntulyklinum.

Verkefnið hefur verið í vinnslu frá 2010. Við sem að verkefninu höfum staðið vonum að sem flestir fái tækifæri til þess að nota plöntulykilinn við kennslu, í göngutúrnum og við alla almenna og faglega náttúruskoðun.

Sigmundur Helgi Brink og Guðmundur Freyr Hallgrímsson

Hafa samband